5. – 10. desember 2024 (6 dagar)
Í faðmi fjallanna er einstakt að vera á aðventunni og Tíról í Austurríki er alger ævintýraheimur. Við fljúgum til München en höldum þaðan til Seefeld, yndislegs bæjar í fjöllum Austurríkis. Bærinn hvílir í sal Wetterstein-, Mieminger- og Karwendel fjalla og verður hann okkar dvalarstaður í þessari aðventuferð. Við höldum í dagsferðir og skoðum dýrðina í Swarovski kristalsheiminum í bænum Wattens og förum einnig í bæinn Mittenwald sem státar af litlum, myndskreyttum húsum, bæjarlæk og skemmtilegum verslunum. Sterzing er töfrandi á aðventunni og við heimsækjum einnig miðaldaborgina Brixen, elstu borg Tíróls á Norður-Ítalíu, þar sem finna má stórfenglegan barokkarkitektúr við rætur töfrandi Alpanna. Innsbruck, höfuðborg Tíról í Austurríki, er ein af ævintýraborgum aðventunnar og þar er sérstaklega gaman að upplifa iðandi mannlíf. Á þessum ljúfu dögum upplifum við aðventu- og fjalladýrð í Seefeld og nágrenni.