Alpafegurð & Portorož

Einstakt landslag Salzburgerlands í Austurríki er sérlega heillandi á þessum árstíma þar sem allt er í blóma og Alpafјöllin skarta sínu allra fegursta. Flogið er til München og stefnan tekin beint á fjallaþorpið Filzmoos í Salzburgerlandi. Þaðan verður farið í spennandi dagsferðir þar sem ólýsanleg náttúrufegurð tekur á móti okkur m.a. í Hallstatt við Hallstättersee sem er með fallegustu stöðum Salzkammergut. Dachstein fjallið bíður okkar og farið er með kláfi upp á Dachsteinjökulinn þar sem við skoðum íshelli, lítum ótrúlegar höggmyndir og njótum stórkostlegs útsýnis. Boðið verður upp á hestakerruferð upp að huggulegu seli þar sem náttúrufegurðin er óviðjafnanleg og einnig ætlum að eiga yndislegan dag í Salzburg, fæðingarborg Mozarts. Eftir dýrðardaga í Austurríki liggur leið okkar til Rósahafnarinnar eða Portorož, dásamlegs bæjar í Slóveníu, en á leiðinni verður áð við Bled vatn sem er rómað fyrir fegurð. Frá Portorož höldum til Rovinj, listamannabæjar við Istríaströndina, og einnig förum við í króatíska bæinn Poreč sem tekur á móti okkur með sínum suðræna blæ. Siglingin til bæjanna Izola og Piran er töfrandi en þeir eru sannkallaðar perlur Istríastrandarinnar. Endum þessa glæsilegu ferð með trompi og sækjum Feneyjar heim og njótum þar glæsileika borgarinnar síðasta daginn. 

Verð á mann í tvíbýli 392.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 77.700 kr.


Innifalið

  • 11 daga ferð.
  • Flug til München með Icelandair ásamt flugvallarsköttum.
  • Flug frá Feneyjum með Play ásamt flugvallarsköttum.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
  • Hestakerruferð frá Filzmoos á Unterhofalm.
  • Hádegissnarl hjá vínbónda. 
  • Sigling út í eyjuna Blejski Otok.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Vínsmökkun.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Kláfur á Dachstein jökulinn og aðgangur í íshöllina u.þ.b. € 57.
  • Aðgangseyrir í Maríukirkjuna á eyjunni Blejski Otok u.þ.b. € 7. 
  • Sigling til Piran og Izola u.þ.b. € 25.
  • Sigling í Feneyjum u.þ.b € 20

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

25. júlí | Flug með Icelandair til München & Filzmoos

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið til Austurríkis, þar sem gist verður í fimm nætur í litla bænum Filzmoos í Salzburgerlandi. Undursamleg fjalladýrð umlykur staðinn. Á sumrin stundar fólk hér fjallgöngur en skíði um vetur. Á hótelinu er heilsulind og innisundlaug en einnig er sólarverönd á þaki sundlaugarbyggingarinnar, svo hægt er að sitja þar úti í góðu veðri og sóla sig í fjallaloftinu.

26. júlí | Hallstatt við vatnið Hallstättersee

Að morgunverði loknum verður ekin heillandi leið um bæina Lumgötz og Abtenau til hins draumfagra bæjar Hallstatt. Bærinn og landsvæðið umhverfis hann var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996. Þetta er yndislegur bær sem gaman er að rölta um. Við lítum inn í kirkjuna, sem er með mjög merkilegu, útskornu altari frá árinu 1520 og skoðum grafhýsið sem tengt er kirkjunni. Síðan verður gefinn tími til að njóta þess að vera á þessum dásamlega stað. Eftir það verður ekið til Schladming þar sem áð verður um stund, áður en haldið verður til baka á hótel.

27. júlí | Dachstein & Dachsteiner kláfurinn

Okkar bíður spennandi dagur í dag en farið verður upp á Dachsteinfjöllin, sem er mest sótti ferðamannastaðurinn í Steiermark, enda á heimsminjaskrá UNESCO. Dachsteiner kláfurinn ferjar okkur upp í 2.700 m hæð, þaðan sem fjallasýnin er mögnuð. Fimm útsýnispallar standa til boða og þeirra á meðal er einn með glergólfi. Sá sem þorir að stíga á þann pall mun sjá hvernig klettaveggur Hunerkogel fjallsins er 250 m lóðrétt niður beint undir fótum hans. Við munum einnig virða fyrir okkur víðáttumikinn íshelli en þar hafa, auk náttúrulegra ísmyndanna, verið gerðir allskyns skúlptúrar úr meira en tonni af ís, t.d. líkan af Egyptalandi til forna.

Opna allt

28. júlí | Filzmoos & hestakerruferð að Unterhofalm

Þennan góða dag er tilvalið að slaka á í Filzmoos fram undir hádegi og kanna umhverfið í þessum litla bæ. Um hádegi verður boðið upp á ferð með hestakerru upp að Unterhofalm selinu sem er við rætur Bischofsmütze fjallsins en þar er náttúrufegurðin óviðjafnanleg. Þar byrjum við á því að fara í smá göngu um Almsee vatnið og upp að kapellu. Síðan er upplagt að fá sér hádegishressingu og njóta fegurðar staðarins áður er haldið verður til baka.

29. júlí | Dagur í Salzburg

Yndislegur dagur í fæðingarborg Mozarts, Salzburg. Borgin er þekkt fyrir byggingar í barokkstíl og hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1996 en Salzburg er í hugum margra hin eina sanna perla Austurríkis. Við hefjum daginn á skoðunarferð um borgina, skoðum Mirabellgarðinn og göngum eftir Getreidegasse sem er með elstu og þekktustu götum borgarinnar en þar er að finna mjög áhugavert Mozartsafn. Einnig verður haldið upp í kastalann Hohensalzburg en þar var hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiðs eða Sound of Music tekinn upp. Stórkostlegt útsýni er þaðan yfir Salzburgerland og borgina.

30. júlí | Bled & Rósahöfnin

Við yfirgefum Austurríki og ökum til Portorož í Slóveníu eða Rósahafnarinnar svokölluðu, þar sem gist verður í fimm nætur. Á leiðinni þangað verður ekið að Bled vatni í Slóveníu sem er með fegurstu perlum Alpanna en þar höldum við í siglingu út í eyjuna Blejski Otok. Þar er hugguleg Maríukirkja með frægri óskabjöllu og landslagið draumkennt. Auðvitað verður tími til að fá sér hressingu og njóta náttúrufegurðar staðarins áður en ekið verður til Portorož. Á hótelinu okkar er inni- og útisundlaug og einkabaðströnd.

31. júlí | Poreč í Króatíu & frjáls eftirmiðdagur í Portorož

Nú ætlum við að skreppa yfir til Poreč í Króatíu sem er yndislegur bær við Istríaströndina. Uhverfið er dásamlegt en bærinn er einn sá elsti við ströndina. Farið verður í stutta skoðunarferð um bæinn sem skartar marmaralögðum götum og fögrum byggingum. Þar er að finna áhugaverða basilíku sem kennd er við himnaför Maríu. Hún er frá 6. öld og var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Auðvelt er að finna skemmtilegar verslanir, þar á meðal fjölmargar skartgripaverslanir. Eftir skoðunarferðina verður frjáls tími til að kanna líf bæjarbúa og fá sér hressingu. Eftir hádegi verður ekið aftur til Portorož en þá ætlum við að njóta þess að vera á þessum fagra stað og kanna umhverfið. Tilvalið er að nýta sér frábæra aðstöðu hótelsins til afslöppunar en einnig er skemmtilegt að ganga eftir ströndinni eða taka sér sundsprett í Adríahafinu.

1. ágúst | Frjáls dagur í Portorož

Í dag ætlum við að njóta þess að vera á þessum fagra stað og kanna umhverfið saman. Tilvalið er að nýta sér frábæra aðstöðu hótelsins til afslöppunar en einnig er skemmtilegt að ganga eftir ströndinni eða taka sér sundsprett í Adríahafinu.

2. ágúst | Sigling til Piran & Izola

Frá Portorož gefst áhugasömum tækifæri á að sigla til sjávarþorpanna Izola og Piran, sem eru sannkallaðar perlur Istríastrandarinnar. Í Izola stígum við í land í stuttan tíma en höldum svo ferðinni áfram til Piran, yndislegs bæjar sem áhugavert er að skoða. Þar fæddist fiðluleikarinn og tónskáldið Tartini en minnisvarði um hann stendur á hinu glæsilega Tartini torgi. Eins er gaman að skoða Georgskirkjuna sem stendur tignarleg á fallegum stað við ströndina.

3. ágúst | Rólegheit í Portorož

Rólegheita dagur í Portorož og nú er upplagt að nota aðstöðuna við hótelið eða fara í göngu með strandlengjunni, jafnvel yfir til Piran. Í bænum kennir einnig margra grasa menningar- og mannlífs, sem gaman er að kynna sér í rólegheitunum.

4. ágúst | Feneyjar & heimferð með Play

Nú er komið að því að kveðja Slóveníu eftir dásamlega daga. Við ökum til Feneyja og byrjum þar á ljúfri siglingu inn í borgina frá bílastæðinu. Auður og íburður blasir hvarvetna við og á vegi okkar verða stórfenglegar sögulegar byggingar eins og hertogahöllin sem er ein glæsilegasta bygging borgarinnar. Við skoðum líka Markúsartorgið þar sem Markúsarkirkjan stendur. Hún er ein merkilegasta kirkjubygging veraldar, byggð í austrænum stíl og minnir á höllina úr ævintýrinu 1001 nótt. Við komum að hinni frægu Rialto brú sem liggur yfir Canal Grande skurðinn en hann mun vera 3,8 km langur og 900 m breiður og við hann standa hvorki fleiri né færri en 200 hallir. Síðdegis mun hverjum og einum gefast tími til þess að skoða þessa fallegu borg betur og njóta mannlífsins. Upplagt er að fá sér kvöldverð í borginni áður en siglt verður til baka . Ekið verður út á flugvöll í Feneyjum. Brottför þaðan kl. 22:05 og lent í Keflavík kl. 00:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti