Skotapils & sekkjapípur

Í þessari þægilegu og skemmtilegu ferð um Skotland njótum við stórkostlegrar náttúru þessa grannríkis okkar í suðri. Skotland er sömuleiðis ríkt af menningu og sögu. Við förum um holt og heiðar, fjörur og fjallgarða og allt þar á milli og stöldrum við í blómlegum bæjum og grösugum sveitum. Við sjáum stærsta stöðuvatn Skotlands, Loch Lomond, eyðum heilum degi á ævintýralegu eyjunni Skye, skimum eftir hinu lífsseiga Loch Ness skrímsli og heimsækjum hinn einstaka Urqhart kastala. Við dveljum í höfuðborg Hálandanna, Inverness, heimsækjum Dunrobin höllina og sjáum hvernig „vatn lífsins“, viskíið, er búið til í einu af fjölmörgum brugghúsum Hálandanna. Við röltum um Ness eyjarnar, smáeyjar í ánni Ness sem rennur í gegnum Inverness og við heimsækjum hinn sögufræga orrustuvöll, Culloden. Við stöldrum við í snotru bæjunum Pitlochry og Perth á leið okkar til Edinborgar. Í höfuðborginni gefum við okkur góðan tíma til að njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða. Í Edinborg skoðum við Holyrood höllina, röltum eftir Royal Mile að Edinborgarkastala sem gnæfir yfir borgina og gleymum okkur á Princess street. Þeir sem eru í stuði geta síðan rölt upp á eldfjallið Arthurs Seat. Þessi stórskemmtilega ferð er góð blanda af sveit og borg, hálöndum og láglöndum.

Verð á mann í tvíbýli 448.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 157.900 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Fimm kvöldverðir.
  • Skoskt kvöld með mat og tónlist 7. júní. 
  • Aðgangseyrir í fjóra kastala.
  • Aðgangur og smökkun í viskí brugghúsi. 
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. 
  • Einn kvöldverður í Edinborg. 
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

1. júní | Flug til Glasgow, Loch Lomond & Fort William

Brottför frá Keflavík kl. 10:10 með flugi Icelandair til Glasgow. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending um kl. 13:25 að staðartíma. Við ökum af stað til Loch Lomond, stærsta stöðuvatns Skotlands. Það er í grösugum dal með fjallið Ben Nevis í bakgrunni. Við stöldrum við í bænum Luss á bökkum vatnsins og höldum svo áfram og í gegnum Tarbet. Þó Tarbet sé vel inn í landi komu víkingar þangað árið 1263 dragandi á eftir sér heilt víkingaskip. Áfram höldum við í hinn sögufræga dal Glencoe. Þar stoppum við til að minnast einhverra grimmilegustu atburða í sögu Skotlands, Massacre of Glencoe, árið 1692 þegar MacDonald ættin var nærri þurrkuð út. Við komum síðan til hins fallega og rótgróna bæjar Fort William þar sem gist verður fyrstu tvær næturnar

2. júní | Sigling á víkingaslóðir

Í dag tökum við daginn snemma því margt er að sjá og dagleiðin nokkuð löng. Að loknum morgunverði ökum við til eyjarinnar Skye. Þó margar eyjar séu við Skotland er sagt að eyjan Skye sé þeirra allra fegurst. Nafnið Skye er dregið af orðinu ský og er upprunið hjá norrænum víkingum sem héldu mikið til á eyjunni og bera mörg staðarheiti þess merki. Landslagið er stórbrotið enda hafa hæðirnar, Cuillin Hills, verið kallaðar bresku Alparnir. Við stöldrum við í höfuðstaðnum Portree og heimsækjum víkingakastalann Dunvegan þar sem við fáum að heyra örlítið um dvöl víkinganna á þessu svæði. Dunvegan er elsti kastali Skotlands með samfellda búsetu. Eyjarskeggjar á Skye eru þekktir fyrir fallegt handverk sem við fáum vonandi að skoða. Þetta verður því spennandi dagur á þessari einstöku eyju. Síðla dags er komið aftur á hótelið í Fort William.

3. júní | Á skrímslaslóðum við Loch Ness & Inverness

Eftir morgunverð verður ekið frá Fort William og fram hjá hæsta fjalli Bretlands, Ben Nevis (1343m). Þaðan höldum við með fram Caledonian skipaskurðinum til bæjarins Forth Augustus. Við ökum svo með fram einu frægasta vatni Evrópu, Loch Ness. Þar býr eitt frægasta skrímsli veraldar, Nessie sem talin er náskyld Lagarfljóts orminum. Við skoðum Urqhart kastalann dulúðuga á bökkum Loch Ness. Þaðan förum við til Inverness þar sem við ætlum að gista í þrjár nætur. 

Opna allt

4. júní | Hálandahöll & viskíverksmiðja

Í dag ökum við norður með stöndinni, út Moray fjörðinn, til Dunrobin hallar sem er stærsta hús Norðurhálandanna með sín 189 herbergi. Umhverfis höllina er afar fallegur skrúðgarður þar sem finna má merkilegt fuglalíf. Þar fáum við líka að fylgjast með fálkatemjurum að störfum. Að lokinni göngu um garðinn skoðum við kastalann. Síðan verður komið við í viskí brugghúsi þar sem við fræðumst um einn mikilvægasta atvinnuveg Skotlands, viskíbruggun, og smökkum jafnvel á afurðunum.

5. júní | Culloden & Ness eyjarnar

Eftir morgunverð höldum við til hins sögufræga staðar Culloden en þar var lokabardagi Jakobítauppreisnarinnar árið 1746 þegar Jakobítaherinn, leiddur af Charles Edward Stuart, þurfti að lúta í lægra haldi fyrir enskum her prins William Augustus. Við skoðum okkur um á orrustuvellinum og fræðumst líka um skosku ættbálkana. Þegar við komum aftur til Inverness ætlum við í gönguferð eftir Ness eyjunum, sem eru smáeyjar í ánni Ness. Við ljúkum göngunni í jurtagarði Inverness. 

6. júní | Pitlochry, Perth & Edinborg

Nú verður ekið frá Inverness og til Edinborgar. Á leiðinni verður komið við í smábænum Pitlochry sem er aðallega þekktur fyrir fjölda viskíbrugghúsa. Áfram höldum við til Perth sem var höfuðborg Skotlands frá 11. öld til ársins 1437 . Við dveljum þar um stund og öndum að okkur sögunni. Við komum síðan til hinnar fögru Edinborgar þar sem við ætlum að gista síðustu tvær nætur ferðarinnar á hóteli í miðbænum. Kvöldverður á eigin vegum.

7. júní | Edinborg – frjáls tími

Við hefjum daginn á skoðunarferð um fallegustu borg Skotlands, höfuðborgina Edinborg. Meðal þess sem við munum skoða eru Holyrood höllin, hin langa og bratta gata Royal Mile og Edinborgarkastali, sem situr á gríðarstórum kletti og gnæfir yfir borgina. Í eftirmiðdaginn gefst svo tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum en stemningin í þessari grænustu borg Stóra-Bretlands er eitthvað sem allir ættu að upplifa. Þeim sem vilja gefst kostur á að rölta upp á Arthurs Seat, eldfjallið í borginni. Deginum líkur síðan á skosku kvöldi á veitingastað.

8. júní | Heimferð

Eftir síðasta skoska morgunverðinn ökum við sem leið liggur til flugvallarins í Glasgow en brottför er kl. 14:20 og lent verður í Keflavík kl. 15:45 að staðartíma.


Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • 2 nætur Fort William - Alexandra Hotel

  • 3 nætur Inverness - Hotel Glen Mhor

  • 2 nætur Edinborg - IBIS Hotel Central

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir




Póstlisti